Erlent

Sam­mála um refsi­að­gerðir gegn Íran brjóti þeir kjarn­orku­sam­komu­lagið

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Íran sex klukkustunda viðræður um kjarnorkuáætlunina í gær.
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Íran sex klukkustunda viðræður um kjarnorkuáætlunina í gær. Vísir/AFP
Leiðtogar sex valdamestu ríkja heims hafa komið sér saman um hvernig eigi að innleiða efnahagsþvinganir gegn Íran standi ríkið ekki við skilmála samkomulags um að hætta kjarnorkuáætlun sinni, sem enn er þó ekki búið að semja um. Samkomulag þjóðanna sex er talinn mikilvægur áfangi í viðræðum sem staðið hafa síðustu vikur um kjarnorkuáætlun Írana.

Ríkin sex sem um ræðir eru Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Rússland og Kína.

Samkomulagið felur í sér að ef upp kemur grunur eða ásakanir um að Íranar brjóti á samkomulaginu fari málið fyrir sérstaka nefnd, sem líklega verður skipuð fulltrúum ríkjanna auk fulltrúa Írans, sem skilar svo áliti um hvort brot hafi verið framið eða ekki.

Bandaríkin og Evrópuríkin hafa viljað að þvinganirnar fari sjálfkrafa á aftur verði stjórnvöld í Teheran uppvís að samningsbroti. Rússar og Kínverjar hafa hins vegar ekki viljað afsala sér neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna hugsanlegra viðskiptaþvingana.

Í gær áttu utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Íran sex klukkustunda viðræður um kjarnorkuáætlunina, sem þóttu góðar. Viðræðurnar í gær snérust um hversu hratt viðskiptaþvingunum gegn Íran verði aflétt og hversu mikinn aðgang stjórnvöld þar í landi þurfa að veita eftirlitsmönnum að herstöðvum sínum, hætti þeir kjarnorkuáætlunum sínum.

Stefnt er að því að klára viðræðurnar fyrir 30. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×