Erlent

Fjölmenn mótmæli vegna G7-fundar í München

Atli Ísleifsson skrifar
Mörg þúsund lögreglumenn hafa verið kallaðir út til að sjá um öryggisgæslu á fundinum sem haldinn verður í Elmau-kastala.
Mörg þúsund lögreglumenn hafa verið kallaðir út til að sjá um öryggisgæslu á fundinum sem haldinn verður í Elmau-kastala. Vísir/AFP
Rúmlega 30 þúsund manns komu saman í þýsku borginni München í dag til að mótmæla komandi fundi G7-ríkjanna.

Umhverfisverndarsinnar og andstæðingar hnattvæðingar lýstu meðal annars yfir óánægju sinni með fyrirhugaðan fríverslunarsamning Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.

Þýskaland er nú í formennsku í G7-hópnum sem samanstendur af sjö stærstu iðnríkjum heims. Áður kallaðist hópurinn G8 en Rússlandi var vikið úr hópnum á síðasta ári með vísun í þróun mála í Úkraínu.

Mörg þúsund lögreglumenn hafa verið kallaðir út til að sjá um öryggisgæslu á fundinum sem haldinn er í Elmau-kastala, nærri skíðabænum Garmisch-Partenkirchen við austurrísku landamærin.

Að sögn talsmanns Bandaríkjastjórnar mun Barack Obama Bandaríkjaforseti hitta forsætisráðherra Íraks í tengslum við fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×