Erlent

Norður Kórea þróar nýjan gervihnött

Samúel Karl Ólason skrifar
Unha-3 eldflaugin sem notuð var til að skjóta gervihnetti á loft árið 2012.
Unha-3 eldflaugin sem notuð var til að skjóta gervihnetti á loft árið 2012. Vísir/AFP
Geimstofnun Norður Kóreu segir að unnið sé að nýrri tegund gervihnattar. Þeir segjast hafa rétt til að framkvæma eldflaugatilraunir að vild, þrátt fyrir mótmæli Bandaríkjanna og annarra sem segja tilraunirnar einungis þjóna hernaðarlegum tilgangi. Fyrsta og eina gervihnetti landsins var skotið á loft árið 2012.

Ekki er þó ljóst hvort hann virki sem skildi.

Gervihnöttinn á að nota til að taka myndir og myndbönd af jörðinni. Paek Chang Ho, varaframkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunardeildar geimstofnunarinnar ræddi við AP fréttaveituna. Hann segir að áður en gervihnettinum verði skotið á loft muni þeir tilkynna alþjóðastofnunum og öðrum þjóðum. Ekki er vitað hvenær gervihnötturinn verður tilbúinn né hvenær á að skjóta honum á loft.

Sérfræðingar sem fréttaveitan ræddi við giska á að gervihnettinum verði skotið á loft í október. Þá verður þess minnst að Verkamannaflokkur Kóreu hefur verið við stjórnvölin í 70 ár.

Nýjar vopnatilraunir valda áhyggjum

Stjórnvöld í Norður Kóreu tilkynntu nýverið að þau hefðu þróað og prófað nýja gerð eldflauga sem þeir gætu skotið úr kafbáti. Þá tóku þeir fram að þeir gætu nú búið til kjarnorkusprengjur sem hægt væri að koma fyrir í langdrægnum eldflaugum.

Sérfræðingar og greinendur draga sannleiksgildi beggja tilkynninganna í efa. Hins vegar þykir ljóst að Norður Kórea búi yfir smáu en stækkandi kjarnorkuvopnabúri og hafi endurbætt eldflaugar sínar frá því að viðræður um kjarnorkustefnu ríkisins hættu 2009.

Menn eru þó ekki sammála um hvort að meginmarkmið tilrauna Norður Kóreu sé að byggja upp þjóðarstolt eða í raun byggja upp getu til að skjóta kjarnorkuvopnum að vesturströnd Bandaríkjanna.

Eftir gervihnattaskotið 2012 voru settar upp eftirlíkingar af eldflauginni víða um landið. Samkvæmt AP klifra börn á slíkum eftirlíkingum í leikgörðum, þá er einnig hægt að finna þær í skemmtigörðum og víða annarsstaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×