Innlent

Borgarstjórn bregst við Beauty Tips-byltingunni

Bjarki Ármannsson skrifar
Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, flutti tillöguna.
Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, flutti tillöguna. Vísir
Samþykkt var á borgarstjórnarfundi í dag að fela svonefndri ofbeldisvarnarnefnd að vinna tillögur að aðgerðum til að styrkja fornvarnarstarf vegna kynbundins ofbeldis og mæta þörfum þolenda. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, flutti tillöguna en stofnun þessarar nefndar var samþykkt á sérstökum hátíðarfundi kvenna í borgarstjórn í mars síðastliðnum.

„Kynbundið ofbeldi er því miður hversdagslegur hluti af samfélaginu,“ sagði Sóley á fundinum í dag. „Það er óþolandi og því verður að útrýma.“

Samkvæmt tilkynningu frá borginni er það samdóma álit allra flokka í borgarstjórn að bregðast þurfi við hinni svokölluðu „Beauty Tips-byltingu,“ þar sem fleiri hundruð kvenna og stúlkna hafa stigið fram á samfélagsmiðlum og sagt frá reynslu sinni af kynferðislegri misnotkun. Þetta sýni að nauðsynlegt sé að tryggja ráðgjöf og stuðning fyrir þolendur kynferðisofbeldis og sporna á sama tíma gegn frekara ofbeldi.

Ofbeldisvarnarefndin verður skipuð sjö fulltrúum og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs þrjá fulltrúa og þrjá til vara, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara, Stígamót tilnefna einn fulltrúa og einn til vara, Samtök um kvennaathvarf tilnefna einn fulltrúa og einn til vara og embætti landlæknis tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara.


Tengdar fréttir

Þurfum að einblína á gerendur ofbeldis

Aðsókn hjá Stígamótum hefur aukist eftir byltingu um uppljóstrun kynferðisbrotamála á samfélagsmiðlum. Algengt er að aðsóknin aukist í kjölfar mikillar fjölmiðlaumræðu. Lögreglufulltrúi segir að enn sé of mikið um þöggun.

Hundruð kvenna segja frá ofbeldi

Íslenskar konur deila inni á Facebook-hópnum Beauty Tips reynslu sinni af kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. "Bylting“ segir ein þeirra og deilir reynslu sinni og vonast eftir að byltingin muni verða til þess að útrýma skömminni.

Sagnfræðingur safnar þöggunarsögum

"Þetta er komið of langt til að gleymast,“ segir Sigríður H. Jörundsdóttir sem safnar reynslusögum kvenna sprottnum af Beauty tips.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×