Chuck Blazer, fyrrum meðlimur í framkvæmdastjórn Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, gerðist njósnari hjá sambandinu fyrir bandarísk yfirvöld. Því hlutverki sinnti hann í átján mánuði eftir að hann játaði allt árið 2013.
FBI, bandaríska alríkislögreglan, stóð fyrir viðamikilli rannsókn á spillingu innan FIFA síðustu ár og viðurkenndi Blazer að hann hefði þegið mútur í skiptum fyrir atkvæði.
Það kemur í hlut framkvæmdastjórnar FIFA að ákveða hvar stórmót í knattspyrnu skulu haldin en Blazer játaði sinn þátt í spillingunni árið 2013.
Í stað þess að fara í fangelsi komst Blazer að samkomulagi við FBI og bandaríska dómsmálaráðuneytið að gerast uppljóstrari og aðstoða þannig við rannsókn þeirra á spillingunni sem mun hafa viðgengist innan FIFA svo árum skiptir.
Blazer safnaði saman upplýsingum um aðra meðlimi framkvæmdastjórnarinnar en það leiddi meðal annars til þess að fjórtán aðilar voru handteknir í víðtækum aðgerðum bandarískra og svissneskra yfirvalda í síðasta mánuði, aðeins tveimur dögum fyrir ársþing FIFA.
Bandaríkjamaðurinn Blazer var framkvæmdastjóri CONCACAF, knattspyrnusambandi norður- og mið-Ameríku, frá 1997 til 2013 en hann viðurkenndi fyrir dómara að hann og aðrir meðlimir í framkvæmdastjórninni hafi þegið mútur vegna heimsmeistarakeppnanna í Frakklandi 1998 og Suður-Afríku 2010.
Þá tók hann við peningagreiðslu í skiptum fyrir atkvæði í tengslum við fimm Gold Cup-mót, álfukeppni CONCACAF, frá 1996 til 2003.
Blazer samþykkti að greiða ellefu milljónir Bandaríkjadala til skattayfirvalda eftir að hafa skotið undan greiðslum í öll þessi ár.
