Þingfundur hófst nú klukkan hálf tvö. Eina málið á dagskrá er frumvarp til laga sem kemur til með að binda enda á verkföll BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Enn hefur ekki tekist að taka málið sjálft á dagskrá þar sem þingmenn hafa haldið ítrekaðar ræður um fundarstjórn forseta.
Fjöldi þingmanna minnihlutans hafa spurt hví það er ekki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sem flytur málið heldur Sigurður Ingi Jóhannsson, atvinnuvegaráðherra. Við þeirri spurningu hefur enn ekki fengist svar.
„Það er gaman að sjá hve stjórnarandstaðan nýtur sín í sviðsljósinu. Hvernig var þetta þegar sett voru lög á flugvirkja? Ekki var talað um hroka og kjarkleysi þá,“ sagði utanríkisráðherra þegar hann steig upp í pontu. „Hverjir voru það sem þorðu að taka á kröfuhöfum? Hverjir lækkuðu lánin heimilanna?“
Upptöku af ræðunni má heyra í fréttinni en ræða utanríkisráðherra féll í grýttan jarðveg hjá þingmönnum sem gerðu hróp og köll að honum. Úr salnum var kallað „æj kommon“ og þegar ráðherra hafði lokið máli sínu heyrðist „Velkominn heim frá Finnlandi!“
Valgerður Bjarnadóttir minnti ríkisstjórnina á orð sem finna má í stjórnarsáttmála hennar. „Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“
Mikill hiti er á þinginu og ljóst að fjörugar umræður eru framundan.
Hlustaðu á ræðuna: Hróp og köll gerð að utanríkisráðherra
Tengdar fréttir
Segja lög á verkfallið nauðsynleg til að gæta almannahagsmuna
Frumvarpið komið á vef Alþingis. Áætlað er að þingfundur hefjist klukkan 13.30.
Mótmæli á Austurvelli: „Fólki er misboðið“
Alþingi ræðir lagasetningu á verkföll stétta innan heilbrigðiskerfisins í dag.
Formenn BHM og hjúkrunarfræðinga segja lagasetningu undirstrika sýndarviðræður stjórnvalda
Hvetja alþingismenn til þess að samþykkja ekki lög á verkföll.