Fótbolti

Jón Daði skoraði er Viking afgreiddi Start í fyrri hálfleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði Böðvarsson er í miklu stuði þessar vikurnar.
Jón Daði Böðvarsson er í miklu stuði þessar vikurnar. mynd/viking-fk.no
Jón Daði Böðvarsson var á skotskónum í auðveldum 3-0 sigri Viking á Start í Íslendingaslag í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Norsku Víkingarnir gengu frá leiknum í fyrri hálfleik en staðan var 3-0 að honum loknum.

Vidar Nisja kom heimamönnum í 1-0 á 4. mínútu og André Danielsen tvöfaldaði forskotið úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur á 36. mínútu.

Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Jón Daði svo þriðja markið fyrir Viking sem lyfti sér upp í annað sæti deildarinnar með sigrinum.

Svo virðist sem Viking hafi gert rétt með að halda Jóni Daða út samningstímann, en hann er nú búinn að skora fjögur mörk í síðustu fjórum leikjum, þar af tvö í síðasta leik gegn Álasundi. Jón Daði fer til Kaiserslautern í janúar.

Fyrirliðinn Indriði Sigurðsson og Steinþór Freyr Þorsteinsson voru einnig í byrjunarliði Viking sem er með 31 stig líkt og Stabæk, en Vålerenga er í fjórða sæti með 30 stig. Þau eiga bæði leik til góða.

Matthías Vilhjálmsson og fyrirliðinn Guðmundur Kristjánsson voru báðir í byrjunarliði Start sem er í tíunda sæti með 19 stig eftir 17 umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×