Innlent

Vill að Íslendingar íhugi að draga úr hvalveiðum

Birgir Olgeirsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Vísir/Pjetur
„Ísland er stundum litið hornauga vegna þessara veiða,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í viðtali við Skessuhorn þar sem hann segist þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að íhuga að draga úr hvalveiðum.

Hann segir starfsmenn utanríkisráðuneytisins finna fyrir því á fundum sem þeir sækja að Ísland sé stundum litið hornauga vegna þessara veiða. Hann segir utanríkisráðuneytið eiga gott samstarf við Bandaríkin í það heila en segir hvalveiðarnar standa í vegi fyrir ákveðnum hlutum.

„Okkur hefur ekki verið boðið á suma fundi og ráðstefnur sem varða málefni hafsins,“ segir Gunnar Bragi við Skessuhorn en segist merkja breytingu.

„Enda reynum við að velta upp lausnum, færum rök fyrir okkar málflutningi og gerum ekki lítið úr áhyggjum þeirra,“ segir Gunnar.

Hann segir Íslendinga eiga ekki að gefa eftir réttinn til að nýta þessa auðlind frekar hverja aðra. „En það er umhugsunarefni fyrir okkur hvort við ættum ekki að koma til móts við alþjóða hvalveiðiráðið til að mynda með því að veiða færri hvali árlega en við gerum nú.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×