Handbolti

Aron Rafn valdi handbolta yfir fótbolta af því að það var svo kalt úti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Rafn Eðvarðsson.
Aron Rafn Eðvarðsson. Vísir/EPA
Aron Rafn Eðvarðsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, skipti um bæði félag og land í sumar en hann mun verja mark danska félagsins Aalborg Håndbold á komandi vetri.

Aron Rafn er að fara að hefja sitt þriðja tímabil í atvinnumennsku en fyrstu tvö árin eyddi hann hjá sænska liðinu Eskilstuna Guif.

Aron Rafn mun verja mark danska liðsins ásamt Svíanum Andreas Palicka sem er kominn til Álaborgar-liðsins frá Kiel. Markvörðurinn Sören Westphal er enn hjá félaginu en hann er að koma til baka eftir krossbandsslit.

Aron Rafn Eðvarðsson varði mark Haukaliðsins áður en hann fór út. Í viðtali á heimasíðu danska félagsins var hann spurður út í það af hverju hann valdi handboltann á sínum tíma.

„Þegar ég var strákur þá spilaði ég bæði handbolta og fótbolta á Íslandi en á einhverjum tímapunkti þá þurfti ég að velja á milli greinanna. Ég valdi handboltann af því að mér fannst hann ver skemmtilegri og svo er handboltinn líka spilaður innandyra," sagði Aron Rafn við aalborghaandbold.dk.

„Það er kalt að spila fótbolta úti á Íslandi. Handboltinn er líka mjög vinsæl íþrótt og ekki síst í bænum þar sem að ég ólst upp," sagði Aron Rafn sem er orðinn 25 ára gamall.

Fyrsti keppnisleikur Arons Rafns með nýja félaginu verður föstudaginn 28. ágúst þegar Álaborgarliðið tekur á móti Skjern í fyrstu umferð dönsku deildarinnar en leikurinn fer fram í nýuppgerði höll félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×