Innlent

Nálgunarbannskröfu Ásdísar vísað aftur heim í hérað

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Af ótta við fyrrverandi sambýlismann sinn flutti Ásdís Hrönn Viðarsdóttir til Þórshafnar árið 2012.
Af ótta við fyrrverandi sambýlismann sinn flutti Ásdís Hrönn Viðarsdóttir til Þórshafnar árið 2012. vísir/anton
Hæstiréttur hefur vísað nálgunarbannskröfu Ásdísar Hrannar Viðarsdóttur á hendur fyrrverandi sambýlismanni hennar aftur heim í hérað en Héraðsdómur Norðurlands eystra hafði fyrr í mánuðinum vísað kröfunni frá.

Var málinu vísað frá héraðsdómi vegna þess að lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra virti ekki tímafresti þegar farið var fram á nálgunarbannið. Ásdís óskaði eftir því að maðurinn yrði látinn sæta nálgunarbann 7. júlí síðastliðinn en lögreglustjórinn fór ekki fram á bannið fyrr en rúmum mánuði síðar.

Lögreglustjóri þarf að taka ákvörðun um nálgunarbann eigi síðar en sólarhring eftir að beiðni frá brotaþola hefur borist.

Í dómi Hæstaréttar segir að þótt brestur verði á því að virða tímamörk hjá lögreglu geti það „ekki ekki varðað frávísun máls frá héraðsdómi heldur ber héraðsdómara að meta hvort þetta standi því í vegi að bann verði lagt á. Verður því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi af sjálfsdáðum og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.“

Ásdís og maðurinn bjuggu saman í um tíu mánuði árið 2011 og eftir að samvistum lauk hefur hann meira og minna ofsótt hana.

Ásdís sagði sögu sína í Kastljósi í fyrra og lagði þar áherslu á að nálgunarbann væri fullkomlega gagnslaust þegar lögregla brygðist ekki við því þegar það væri brotið.

Hún var í viðtali við Fréttablaðið nýverið sem lesa má hér.


Tengdar fréttir

Ofsækir Ásdísi aftur eftir árs hlé

Ásdís Hrönn Viðarsdóttir hefur ítrekað kært brot á nálgunarbanni sem sett var á fyrrverandi sambýlismann hennar, fyrst árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×