Erlent

19 ára Hollendingur er helsti kortagerðarmaður átakanna í Sýrlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Góð kort skipta máli.
Góð kort skipta máli. Google Maps
Einn af helstu kortagerðarmönnum átakanna í Sýrlandi og nágrenni er 19 ára strákur sem búsettur er í Hollandi. Hann hefur aldrei stigið fæti inn í Sýrland en hefur komið sér upp víðtæku neti heimildarmanna sem gefa honum nýjar upplýsingar um framvindu átaka. Margir af stærstu fjölmiðlum heims hafa nýtt sér kort hins unga Hollendings.

Thomas van Linge.Mynd af Twitter-síðu kortagerðamannsins
Thomas van Linge býr heima hjá foreldrum sínum í Amsterdam, nálægt Schiphol flugvelli. Hefur hann nýlokið menntaskóla og það var við vinnslu skólaverkefnis sem hann fékk áhuga á því hvað væri á seyði í Sýrlandi og nágrenni.

Árið 2011 horfði Thomas á heimildarmynd um Arabíska vorið og fylltist eldmóð horfandi á ungt fólk berjast fyrir frelsi sínu.

Hann kynnti sér ástandið í Sýrland og ákvað að vinna verkefni fyrir skólann um átökin sem þar áttu sér stað. Hann fann kort af Sýrlandi á Google Maps.

Hann fór að bæta inn upplýsingum á kortið og smám saman vatt verkefnið upp á sig.

Í dag er hann með 14.000 fylgjendur á Twitter og hefur komið sér upp víðtæku neti heimildarmanna sem veita honum upplýsingar sem hann nýtir sér við kortagerðina. Heimildarmenn hans eru hermenn á vígstöðum Sýrlands og aðgerðasinnar sem starfa í Sýrlandi og spjallar hann við þá með hjálp tækninnar, Skype, Facebook og Twitter færir Sýrland nær heimili Thomas í úthverfum Amsterdam. Allt í allt segist Thomas vera með um 1.100 heimildarmenn sem aðstoða hann og veita honum upplýsingar.

Fjölmiðlar á borð við CNN, New York Times og Der Spiegel hafa nýtt sér kort Van Linge í umfjöllun sinni um átökin í Sýrlandi. Nýútskrifaður úr menntaskóla hefur Thomas verið að íhuga framtíð sína og næstu skref.

Hann hefur hug á því að ferðast og langar honum helst að koma á einhvern af þeim stöðum sem hann hefur einbeitt sér að síðustu ár, Thomas finnst nefnilega að hann hafi eitt of miklum tíma að fylgjast með ástandi mála í Sýrlandi úr fjarlægð. Er hann því að skoða möguleikann á því að koma sér fyrir í NA-Írak, í héraði sem Kúrdar stjórna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×