Erlent

Madeleine prinsessa flutt til London

Atli Ísleifsson skrifar
Chris O'Neill, Madeleine og sonurinn Nicolas fyrr í sumar.
Chris O'Neill, Madeleine og sonurinn Nicolas fyrr í sumar. Mynd/Kungahuset
Madeleine Svíaprinsessa og eiginmaður hennar Christopher O‘Neill hafa nú flutt frá Svíþjóð og til London.

Margareta Thorgren, upplýsingafulltrúi sænsku konungsfjölskyldunnar, staðfestir í samtali við sænska fjölmiðla að fjölskyldan hafi flutt fyrr í mánuðinum og sé nú í óðaönn að koma sér fyrir á nýju heimili.

Madeleine og O‘Neill höfðu búið í New York um margra ára skeið en fluttust fyrr á árinu til Stokkhólms, en sá flutningur var þó einungis tímabundinn. Thorgren segir að flest viðskipti Chris eigi sér stað í Englandi og því hafi fjölskyldan ákveðið að flytja þangað.

Hjónin eignuðust soninn Nicolas um miðjan júní, en fyrir áttu þau dótturina Leonore, átján mánaða.

Thorgren vill ekki upplýsa hvar í London fjölskyldan er að koma sér fyrir og segist vonast til að hún fái að gera það í friði frá fjölmiðlum.

Fyrr í dag var greint frá því að skírnarathöfn Nicolas muni eiga sér stað í hallarkirkjunni við Drottningholm þann 11. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×