Erlent

Kveikt í byggingu sem ætluð var hælisleitendum í Þýskalandi

Atli ísleifsson skrifar
Ljóst þykir að um íkveikju var að ræða.
Ljóst þykir að um íkveikju var að ræða. Vísir/AFP
Kveikt var í íþróttasal í þýska bænum Nauen í nótt en honum var ætlað að hýsa hælisleitendur. Ráðist hefur verið á fjölda bygginga fyrir hælisleitendur í Þýskalandi að undanförnu.

Salnum var tímabundið ætlað að hýsa um 130 hælisleitendur sem hafast nú við í tjaldbúðum í bænum Eisenhüttenstadt, skammt frá pólsku landamærunum.

Nauen er nokkra tugi kílómetra vestur af höfuðborginni Berlín og hafa mótmæli gegn komu hælisleitendanna verið nokkuð tíð í bænum í sumar. Ljóst þykir að um íkveikju sé að ræða.

Mótmæli nýnasista

Um helgina beindist kastljósið að mótmælum nýnasista í bænum Heidenau í Saxlandi þar sem til harðra átaka kom milli mótmælenda og lögreglu.

Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands, sótti Heidenau heim í gær þar sem hann kallaði mótmælendurna „pakk“. Angela Merkel kanslari sagði jafnframt mótmælin vera „skammarleg“ og sagði það sérstaklega truflandi að sjá að barnafjölskyldur hefðu tekið þátt í þeim.

800 þúsund hælisleitendur

Merkel og Francois Hollande Frakklandsforseti funduðu í gær í Berlín til að ræða flóttamannavanda álfunnar og sögðust þau sammála um að aðildarríki Evrópu þyrftu öll að hjálpast að til að leysa vandann.

Í síðustu viku var tilkynnt að Þýskaland gerði ráð fyrir að taka á móti 800 þúsund hælisleitendum á þessu ári, samanborið við 250 þúsund á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×