Erlent

Rússland þarf að greiða Hollandi skaðabætur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skipið sem um ræðir
Skipið sem um ræðir Vísir/Getty
Alþjóðagerðardómurinn í Haag hefur skipað rússneska ríkinu að greiða hollenska ríkinu skaðabætur vegna eignarupptöku Rússa á hollensku skipi en áhöfn þess var að mótmæla olíuborunum þegar Rússar lögðu hald á skipið.

Dómstóllinn dæmdi Hollendingum í vil en upphæð skaðabótanna verður ákveðin síðar. Rússar tóku ekki þátt í málflutningi málsins á neinu stigi og voru ekki viðstaddir úrskurð dómstólsins.

Rússnesk yfirvöld lögðu hald á Arctic Sunrise í september 2013 en skipið sigldi undir hollensku flaggi. Skipið sjálft og 30 manna áhöfn þess var haldið í Rússlandi eftir að áhöfnin, meðlimir í Greenpeace, reyndu að klifra upp rússneskan olíuborpall.

Áhafnarmeðlimir kærðir fyrir sjóræningjastarfsemi

Alþjóðagerðadómurinn komst að þeirri niðurstöðu að með eignarupptökunni hefðu Rússar brugðist skyldum sínum gagnvart hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna. Í dóminum segir að hollenska ríkið eigi rétt á skaðabótum vegna skemmda sem urðu á skipinu.

Áhafnarmeðlimir voru upprunalega kærðir af rússneskum yfirvöldum fyrir sjóræningastarfsemi en var sleppt úr haldi í nóvember 2013 þegar þeim var veitt friðhelgi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×