Innlent

Segir tímafrest óraunhæfan þegar farið er fram á nálgunarbann

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Eyþór Þorbergsson, fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.
Eyþór Þorbergsson, fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.
„Mér finnst það ekki fagleg stjórnsýsla ef hún þarf að fara aftur í gegnum sömu hlutina á nákvæmlega sömu forsendum,“ segir Eyþór Þorbergsson, fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, um mál Ásdísar Hrannar Viðarsdóttur gegn fyrrverandi sambýlismanni sínum sem hefur ofsótt hana um árabil.

Kröfu hennar um nálgunarbann frá 6. júlí síðastliðnum vegna ítrekaðra ofsókna og fjölda sms-skilaboða frá manninum var vísað frá dómi í Héraðsdómi Norðurlands eystra síðastliðinn föstudag. Ástæða frávísunarinnar var sú að lögreglustjórinn virti ekki skýra tímafresti þegar hann fór fram á nálgunarbannið. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra kærði úrskurðinn til Hæstaréttar í gær.

Ásdís Hrönn Viðarsdóttir
„Einn sólarhringur er bara ekki raunhæfur frestur og mér finnst lögin gölluð að þessu leyti. Það getur tekið meira en einn sólarhring að taka ákvörðun um nálgunarbann,“ segir Eyþór en í lögunum er kveðið á um sólarhringsfrest.

„Lögreglustjórinn tekur stundum ákvörðun töluvert eftir að krafan kemur fram. Í þessu máli var fresturinn meira að segja liðinn þegar konan kom með símann til okkar til Akureyrar,“ segir Eyþór, en Ásdís býr á Þórshöfn og tók það hana meira en sólarhring að fara með símann sem sönnunargagn til Akureyrar frá því að hún óskaði eftir nálgunarbanni.

Ásdís segir kerfið hafa brugðist sér margoft. „Þetta er alltaf sama sagan. Kerfið stendur með honum en ekki með mér. Það er hann sem er látinn njóta vafans.“ 


Tengdar fréttir

Ofsækir Ásdísi aftur eftir árs hlé

Ásdís Hrönn Viðarsdóttir hefur ítrekað kært brot á nálgunarbanni sem sett var á fyrrverandi sambýlismann hennar, fyrst árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×