Handbolti

Lærisveinar Alfreðs höfðu betur gegn Rúnari og Ólafi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Vísir/Getty
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel höfðu betur gegn Ólafi Andrési Guðmundssyni, Rúnari Kárasyni og félögum í Hannover-Burgdorf í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikmenn Kiel lentu í töluverðum vandræðum gegn Hannover en náðu loksins tökum á leiknum í seinni og unnu að lokum fjögurra marka sigur.

Hannover var einu marki yfir í hálfleik í stöðunni 14-13 og var með þriggja marka forskoti þegar seinni hálfleikur var hálfnaður í stöðunni 23-20. Eftir það hrukku leikmenn Kiel í gang en þeir höfðu betur síðustu fimmtán mínúturnar 13-6 og lauk leiknum með 33-29 sigri Kiel.

Rúnar Kárason komst á blað með eitt mark í leiknum en Ólafur kom ekki við sögu í liði Hannover Burgdorf.

Í fyrri leik kvöldsins vann Rhein-Neckar Löwen stórsigur á Eisenach á heimavelli. Rhein-Neckar Löwen var tíu mörkum yfir í hálfleik og hleypti Eisenach aldrei nálægt sér í seinni hálfleik og vann að lokum 14 marka sigur, 39-25.

Ólafur Bjarki Ragnarsson náði að setja þrjú mörk á Löwen en í liði Löwen náði Alexander Petersson að skora fjögur mörk og þá bætti Stefán Rafn Sigurmannsson við einu marki.

Í franska deildarbikarnum tapaði Nimes með Ásgeir Örn Hallgrímsson og Snorra Stein Guðjónsson naumlega, 33-34, gegn Toulouse á heimavelli Nimes. Snorri og Ásgeir voru í stórum hlutverkum í kvöld en Ásgeir skoraði átta mörk úr aðeins tólf skotum en Snorri setti fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×