Erlent

Fyrrverandi tenniskappi handtekinn fyrir mistök: Segir málið lykta af kynþáttafordómum

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan í New York hefur beðið tenniskappann James Blake afsökunar á handtökunni.
Lögreglan í New York hefur beðið tenniskappann James Blake afsökunar á handtökunni. Vísir/YouTube/EPA
Lögregluembætti New York-borgar í Bandaríkjunum hefur gefið út myndband úr öryggismyndavél sem sýnir þegar fyrrverandi tenniskappinn James Blake var handtekinn fyrir mistök.

Blake var á leið á opna bandaríska meistaramótið í tennis, US Open, þegar óeinkennisklæddur lögreglumaður sneri Blake í jörðina og handjárnaði hann. Lögreglumaðurinn heitir James Frascatore en hann hefur áður verið ásakaður um harðræði í garð borgara. Hann fær ekki að sinna eftirliti á meðan mál hans er í rannsókn.

Lögreglustjórinn í New York, William Bratton, sagði Blake hafa litið út eins og tvíburabróðir manns sem er eftirlýstur og hefur lögreglustjórinn beðið Blake afsökunar.

Blake heldur því fram að lögreglumaðurinn hafi beitt hann harðræði við þessa handtöku á miðvikudag. Blake hefur sagt við fjölmiðla að hann telji líkur á því að kynþáttafordómar hafi átt þátt í því að hann var handtekinn.

„Ég er staðráðinn í að nýta þetta ömurlega atvik til viðhorfsbreytingar í samskiptum lögreglu og borgaranna sem hún þjónar. Svona atvik eru allt of algeng,“sagði Blake í tilkynningu til fjölmiðla fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×