Erlent

Nítján ára maður viðurkennir að hafa banað Idu Johansson

Atli Ísleifsson skrifar
Hin 21 árs Johansson fór út að skokka að kvöldi 5. ágúst á útivistarsvæðinu Runby en skilaði sér aldrei heim.
Hin 21 árs Johansson fór út að skokka að kvöldi 5. ágúst á útivistarsvæðinu Runby en skilaði sér aldrei heim. Mynd/Lögregla í Svíþjóð/Getty
Nítján ára maður hefur verið handtekinn og viðurkennt að hafa myrt Idu Johansson sem fannst látin á útivistarsvæði í Upplands Väsby, norður af Stokkhólmi, í síðasta mánuði.

Hin 21 árs Johansson fór út að skokka að kvöldi 5. ágúst á útivistarsvæðinu Runby en skilaði sér aldrei heim. Foreldrar hennar fóru þá að leita að henni og fann lögregla lík hennar skammt frá einni hlaupaleiðinni síðar um nóttina.

Lögregla sagði að strax hafi legið fyrir að hún hafi verið myrt.

Í frétt SVT kemur fram að maðurinn sem nú hefur viðurkennt morðið búi í Upplands-Väsby. Hann var handtekinn eftir að lögreglu barst ábending um að maður um tvítugt hafi verið á svæðinu um svipað leyti og Johansson var myrt.

Lögregla fór þá heim til mannsins, yfirheyrði hann, auk þess að taka lífsýni sem passaði við það sem fundist hafði á líki Johansson. Maðurinn var í kjölfarið handtekinn.

Ekki liggur fyrir um ástæður morðsins og vill lögregla ekki greina frá því hvort Johansson hafi verið beitt kynferðisofbeldi áður en hún var myrt.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Stefan Lundin segir að um mjög umfangsmikla rannsókn hafi verið að ræða þar sem hafi farið fram um 850 yfirheyrslur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×