Innlent

Kirkjan krefur ríkið um 230 milljónir króna

Sveinn Arnarsson skrifar
Kirkjan telur að ekki megi draga sértekjur frá til lækkunar á greiðslum frá ríki.
Kirkjan telur að ekki megi draga sértekjur frá til lækkunar á greiðslum frá ríki. vísir/gva
Forsvarsmenn þjóðkirkjunnar vilja að ríkissjóður veiti 230 milljónum meira til kirkjunnar á næsta ári en til stendur samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þetta kemur fram í bréfi Agnesar Sigurðardóttur biskups til fjárlaganefndar þingsins.

Fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að úr ríkissjóði renni 1.580 milljónir króna til þjóðkirkjunnar. Hins vegar er gert ráð fyrir að almennur rekstur hennar muni kosta rúmlega 1,8 milljarða.

Agnes Sigurðardóttir, biskup
Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að 229 milljónir króna renni til kirkjunnar í formi sértekna stofnunarinnar og reiknast það til frádráttar heildarframlagi kirkjunnar. Þetta eru kirkjunnar menn ekki sáttir við og benda á samning milli ríkis og kirkju um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað Biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar frá árinu 1998.

Björn Bjarnason var þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra.

„Kirkjan telur að áttunda grein samningsins á milli ríkis og kirkju sé skýr um að ekki eigi að draga sértekjur frá til lækkunar á skuldbindingum ríkisins. Kirkjan leggur áherslu á að ríkið standi við sinn hluta samningsins,“ segir Tinna Víðisdóttir, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Píratavísir/vilhelm
Áttunda grein samningsins er nokkuð skýr. „Framlag úr ríkissjóði er óháð öðrum tekjum sem þjóðkirkjan kann að afla,“ segir í greininni.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir þennan samning vera mjög hagstæðan fyrir kirkju. „Þjóðkirkjan er sátt við fyrirkomulagið og vill auðvitað að það sé staðið við samninginn við hana. Þetta er hluti af gömlu samkomulagi þar sem kirkjan nýtur gífurlega forréttinda.“

Helgi segir að kirkjan gæti sagt upp samningnum ef það telur ríkið ekki standa við sinn hluta. Hann býst hins vegar ekki við því að kirkjan geri það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×