Erlent

Norðmaðurinn talinn af

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Tilfinningaþrungið andrúmsloft var á blaðamannafundinum í kvöld.
Tilfinningaþrungið andrúmsloft var á blaðamannafundinum í kvöld. VÍSIR/EPA
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagðist á blaðamannafundi í kvöld ekki geta staðfest hvort Norðmaðurinn, sem hefur verið í haldi ISIS frá því í janúar, hafi verið myrtur, líkt og samtökin halda fram. Þó væri ekki ástæða til að ætla annað.

Solberg sendi fjölskyldu mannsins, hinum fjörutíu og átta ára Ole Johan Grimsgaard-Ofstad, sínar dýpstu samúðarkveðjur. Þá fordæmdi hún verknaðinn og sagði mikilvægt að allir Norðmenn stæðu saman gegn vígamönnunum. Hryðjuverkamennirnir megi aldrei sigra.

Úr tímariti ISIS - Dabiq.
Borge Brende, utanríkisráðherra Noregs, sagðist á fundinum hafa fengið sendar myndir af Grimsgaard-Ofstad frá samtökunum þar sem krafist var lausnargjalds. Af myndunum að dæma sé ljóst að hann hafi verið beittur miklu ofbeldi. Þá sagði hann að veittar verði frekari upplýsingar um málið í samráði við fjölskyldu mannsins.

ISIS birtu í tímariti sínu í dag myndir af manninum, þar sem hann virðist hafa verið skotinn til bana. Norsk stjórnvöld hafa í dag reynt að fá úr því skorið hvort um raunverulegar myndir hafi verið að ræða.

Í þessu sama tímariti birtist mynd af Fan Jinghui, fimmtugum Kínverja, sem einnig er talinn af. Þá var birt mynd af sprengju sem sögð er vera sú sem grandaði rússnesku farþegaþotunni á Sinaí-skaga í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×