Erlent

Umræða um fjórtán ára ólétt flóttabarn í Noregi

Atli Ísleifsson skrifar
Þúsundir flóttamanna hafa komið til Noregs síðustu mánuði. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Þúsundir flóttamanna hafa komið til Noregs síðustu mánuði. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AFP
Nokkur umræða hefur skapast í Noregi eftir að þarlend yfirvöld brugðust ekkert við eftir að par frá Sýrlandi sótti um hæli í landinu fyrir tveimur vikum. Parið á átján mánaða son og á von á öðru barni, en mamman er einungis fjórtán ára gömul.

Aftenposten greinir frá því að það hafi fyrst verið eftir að starfsmenn á heimili fyrir hælisleitendur bentu á lágan aldur stúlkunnar sem yfirvöld brugðust við.

Stúlkan á að hafa verið tólf ára þegar þau giftust, en slíkt er ólöglegt bæði í Sýrlandi og Noregi. Maðurinn er 23 ára gamall og hafa norsk barnaverndaryfirvöld nú málið til meðferðar.

Mikil umræða hefur hins vegar skapast um hvernig menn hafi séð gegnum fingur sér þar sem staða parsins stangast á við ýmis lagaákvæði, þeirra á meðal kynferðislega misnotkun.

Mannfræðingurinn Unni Wikan segir í samtali við NRK að það geti reynst stúlkum í þessari stöðu enn verr ef yfirvöld skipti sér af þar sem skilnaður sé ekki litinn vægum augum innan íslam.

Wikan segir að sýrlenska borgarastríðið hafi gert stöðu stúlkna sem misst hafa föður sinn mjög erfiða, og því hafi hjúskapur sem þessi orðið algengari. Hjúskapurinn veiti stúlkunum ákveðið öryggi. „Ef stúlkunni líður vel í þessu hjónabandi, eiga norsk yfirvöld að styðja við bakið á fjölskyldunni, þrátt fyrir að hún sé barnabrúður.“

Í leiðurum fjölda norskra blaða kemur fram að galið sé að mála manninn í þessu máli sem glæpamann.

Solveig Horne, barna- og jaftréttismálaráðherra Noregs, harmar að yfirvöld hafi ekki brugðist strax við, en bendir á að nú sé hlúð að stúlkunni. „Þetta mál minnir á mikilvægi þess að vera með gott verklag og gott samstarf til að koma megi í veg fyrir slíkt mál í framtíðinni,“ segir hún í samtali við NTB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×