Erlent

Bjargað úr ísbjarnabúri í dýragarði í Kaupmannahöfn

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá dýragarðinum í sumar.
Frá dýragarðinum í sumar. Vísir/EPA
Karlmaður særðist eftir að hann stökk ofan í búr ísbjarna í dýragarðinum í Kaupmannahöfn í dag. Honum var bjargað af starfsfólki dýragarðsins en er sagður eiga við geðræn vandamál að stríða. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús og er lítillega meiddur.

Starfsmenn dýragarðsins brugðust fljótt við samkvæmt frétt Ekstrabladet og skutu á eina björninn sem var í búrinu með gúmmíkúlum til að hræða hann frá manninum. Björninn hlaut ekki skaða af því að vera skotinn með gúmmíkúlunum að sögn starfsfólks dýragarðsins.

Maðurinn, sem er talinn vera frá Litháen, mun hafa stokkið niður og gengið beint að birninum. Hann hlaut skurði á líkamanum en ekki er vitað hvort það er eftir bit eða klór. Starfsmönnum og gestum sem urðu vitni að atvikinu var boðin áfallahjálp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×