Erlent

Greina frá áður óþekktri grimmd gíslatökumannanna í München 1972

Atli Ísleifsson skrifar
Ilana Romano,  ekkja kraftlyftingamannsins Yossef Romano, og Ankie Spitzer, ekkja skylmingaþjálfarans Andre Spitzer árið 2012.
Ilana Romano, ekkja kraftlyftingamannsins Yossef Romano, og Ankie Spitzer, ekkja skylmingaþjálfarans Andre Spitzer árið 2012. Vísir/AFP
Eiginkonur og aðrir fjölskyldumeðlimir ísraelsku íþróttamannanna, sem drepnir voru í gíslatöku palestínskra hryðjuverkamannanna á Ólympíuleikunum í München árið 1972, hafa í fyrsta sinn greint opinberlega frá áður óþekktum grimmdarverkum gíslatökumannanna og morðingja eiginmanna og ástvina þeirra.

Á meðal þeirra upplýsinga sem nú hafa komið fram eru að ísraelsku fórnarlömbin hafi verið barin til óbóta á meðan þeim var haldið og kynfæri að minnsta kosti eins þeirra skorin af.

„Það sem þeir gerðu voru að skera kynfæri hans af í gegnum nærfötin og börðu hann. Getur þú ímyndað þér hina níu, bundna, þar sem þeir fylgdust með? Þeir urðu vitni að þessu,“ segir Ilana Romano, eiginkona kraftlyftingamannsins Yossef Romano, sem lést í árásinni.

Ellefu Ísraelsmenn létust

Hópur átta palestínskra hryðjuverkamanna réðust inn í íbúðir ísraelsku Ólympíufaranna í Ólympíuþorpinu í München að morgni 5. september 1972. Eftir tuttugu klukkustunda umsátur og misheppnaðar aðgerðir lögreglu til að frelsa gíslana lágu ellefu Ísraelsmenn í valnum, auk þýsks lögreglumanns.

Hryðjuverkamennirnir höfðu farið fram á að 234 palestínskum föngum í Ísrael yrði sleppt, auk stofnenda Baader-Meinhof-hreyfingarinnar. Fimm gíslatökumannanna voru drepnir og þrír handteknir í aðgerðum lögreglu.

Í frétt New York Times kemur fram að í september 1992 hafi tvær ekkjur ísraelskra íþróttamanna sem féllu í árásinni, farið á fund lögfræðings þeirra. Sá sagðist hafa fengið sendar ljósmyndir sem teknar voru í íbúðunum í München eftir árásirnar. Lögfræðingurinn sagði að hann ráðlagði þeim að skoða ekki myndirnar. Þær kröfðust þess þó að fá að gera það, en sögðust ekki ætla að ræða málið opinberlega.

Vilja að hinir látnu fái viðurkenningu

Fjölskyldumeðlimir fórnarlambanna segjast nú greina opinberlega frá þessu í tilraun til að hinir látnu fái þá viðurkenningu sem þeir telja þá eiga skilið.

Rætt er við Ilönu Romano og aðra fjölskyldumeðlimi fórnarlambanna í myndinni „Munich 1972 & Beyond“ sem frumsýnd verður á næsta ári.

Jacques Rogge, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, minnist fórnarlambanna í Aþenu 2004.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×