Handbolti

Noregur í úrslit eftir framlengdan leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þórir Hergeirsson er kominn með sitt lið í úrslit á HM.
Þórir Hergeirsson er kominn með sitt lið í úrslit á HM. vísir/epa
Það verða Norðmenn og Hollendingar sem leika til úrslita á HM kvenna í handbolta. Stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar í Noregi tryggðu sér sæti í úrslitum í kvöld eftir sigur á Rúmeníu, 35-33, eftir framlengingu.

Noregur leiddi frá upphafi og var þrem mörkum yfir í hálfleik, 17-14. Það var ekki fyrr en sextán mínútur lifðu leiks sem Rúmenía náði að komast yfir, 20-21.

Síðasti stundarfjórðungurinn var síðan æsispenanndi. Noregur komst yfir á ný, 25-24, þegar átta mínútur voru eftir. Svo héldust liðin í hendur.

Rúmenar áttu lokaskot leiksins en norski markvörðurinn varði það og kom Noregi þar með í framlengingu. 27-27 þegar venjulegum leiktíma var lokið.

Framlengingin var æsispennandi, rétt eins og leikurinn allur, og í henni voru taugar norska liðsins sterkari. Þær náðu mest þriggja marka forskoti en Rúmenía kom til baka og lét Norðmenn hafa fyrir hlutunum sem fyrr.

Noregur skoraði lokamark leiksins tveim sekúndum fyrir leikslok og tryggði sér dramatískan sigur, 35-33.

Úrslitaleikurinn fer fram í Herning í Danmörku á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×