Handbolti

Stelpurnar hans Þóris komnar í undanúrslit á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir fagnar á hliðarlínunni í kvöld.
Þórir fagnar á hliðarlínunni í kvöld. vísir/epa
Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu til sigurs á Svartfjallalandi, 26-25, í 8-liða úrslitum á HM í handbolta í Danmörku í kvöld.

Norska liðið er því komið í undanúrslit og á möguleika á að vinna sinn þriðja heimsmeistaratitil.

Það var hart barist í Sydbank Arena í Kolding en brottvísanirnar í leiknum voru alls tólf.

Noregur leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 13-11, og spennan var mikil í seinni hálfleik.

Norska liðið reyndist sterkara á lokasprettinum þar sem framlag Silje Solberg og Nora Mörk vóg þungt. Solberg varði mikilvæg skot í markinu og Mörk skoraði alls átta mörk, flest allra í liði Noregs.

Majda Mehmedovic og Jovanka Radicevic skoruðu báðar sex mörk fyrir Svartfellinga.

Það var gríðarleg spenna í Herning þar sem heimakonur og Rúmenía áttust við.

Rúmenía var jafnan fyrri til að skora og leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 10-13.

En Danir gáfust ekki og Line Jörgensen jafnaði metin í 27-27 úr vítakasti þegar 17 sekúndur voru eftir. Rúmenar fóru í sókn og fengu vítakast. Cristina Neagu fór á vítalínunni en Rikke Poulsen tryggði Dönum framlengingu með því að verja vítið.

Liðin skiptust á forystunni í framlengingunni en Adriana Nechita skoraði sigurmark Rúmeníu þegar ein sekúnda var eftir af leiknum. Lokatölur 30-31, Rúmeníu í vil.

Þessi lið mætast í undanúrslitunum á föstudaginn:

Holland - Pólland

Noregur - Rúmenía


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×