Erlent

Skólum lokað vegna hótana

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Búið er að loka öllum skólum í og við borgina Los Angeles í Bandaríkjunum. Það var gert vegna „trúverðugra“ hryðjuverkahótana. Hótununum hefur einnig verið lýst sem rafrænum en líklegt þykir að um sprengjuhótun sé verið að ræða, þar sem starfsmenn og lögregluþjónar leita nú í öllum skólum svæðisins.

Hótanirnar sem um ræðir sneru ekki að einum tilteknum skóla heldur mörgum. Fréttastofa CBS í Los Angeles segir að enn sé verið að meta ógnina, en meira en þúsund skólum var lokað. Rúmlega 650 þúsund nemendur stunda nám við þessa skóla.

Reiknað er með að leitinni verði lokið á morgun og þá geti skólar opnað aftur. Yfirmaður skólamála á svæðinu sagði að hótanir bærust reglulega en að hótanir sem þessar væru „sjaldgæfar“.

Börnum hefur verið skipað að halda sér heima, en þau sem þegar væru komin í skólann ættu að vera sótt af foreldrum. Þá hefur foreldrum verið skipað að taka með sér skilríki þegar þau sækja börnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×