Erlent

Öfgaflokkur Le Pen fékk hvergi flest atkvæði

Bjarki Ármannsson skrifar
Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi.
Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi. Vísir/AFP
Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, viðurkenndi í kvöld ósigur í héraðskosningum þar í landi eftir að útgönguspár bentu til þess að flokkurinn hlyti ekki sigur í neinu héraði. Flokkurinn öfgasinnaði missti niður talsvert forskot frá því í síðustu viku. 

Þá fór fram fyrri umferð kosninganna og þar fékk Þjóðfylkingin flest atkvæði í sex af þrettán héruðum landsins. Útgönguspár nú í kvöld bentu þó til þess að Le Pen þyrfti að bíta í það súra epli að flokkurinn fengi hvergi flest atkvæði og lenti í þriðja sæti á landsvísu á eftir repúblikanaflokki Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseta, og sósíalistaflokki forsætisráðherrans Manuel Valls.

Þjóðfylkingin er öfgasinnaður hægriflokkur sem boðar harðlínustefnu í innflytjendamálum og vill taka upp dauðarefsingu í Frakklandi á ný. Fyrir viku virtist sem mannskæðar hryðjuverkaárásir í París á árinu, bæði í janúar og svo í síðasta mánuði, ætluðu að verða til þess að færa Le Pen aukin völd.

Le Pen sakaði í gær aðra stjórnmálaflokka um lygar og óheiðarleika en flokkarnir töluðu allir sem einn gegn Þjóðfylkingunni í kosningabaráttunni.​



Fleiri fréttir

Sjá meira


×