Erlent

Rússar skutu á tyrkneskan togara

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Smetliviy við höfn í Sevastopol á Krímskaga.
Smetliviy við höfn í Sevastopol á Krímskaga. Vísir/AFP
Rússneskt herskip skaut viðvörunarskoti í átt að tyrknesku fiskveiðiskipi í Eyjahafi í dag.

Að sögn stjórnvalda í Moskvu var það gert til að koma í veg fyrir að skipin skyllu saman. Fjölmiðlar ytra greina frá þessu og eru þeir á einu máli um að þetta muni koma til með að gera samskipi Rússa og Tyrkja enn stirðari.



Sjá einnig: Segir flugritann leiða sannleikann í ljós


Ríkin hafa deilt hart undanfarið allt frá því að tyrkneski flugherinn skaut niður rússneska orrustuþotu yfir Sýrlandi í nóvember. Í yfirlýsingu frá rússneska varnarmálaráðuneytinu segir að eftirlitsskipið Smetliviy hafi ítrekað sent sjónrænar viðvaranir til tyrkneska skipsins.

Þá hafi Rússar reynt að ná talstöðvarsambandi við skipið þegar það var í um kílómetra fjarlægð en án árangurs. Þegar engin skilaboð höfðu borist frá skipinu og það var komið í um 600 metra fjarlægð hafi rússneska skipið skotið í átt að því svo að það breytti um stefnu. Sendinefnd tyrkneska hersins í Moskvu var kölluð saman vegna málsins.

Það hefur blásið köldu á milli Rússa og Tyrkja allt frá því að hinni rússnesku SU-24 orrustuþotu var grandað þann 24. nóvember síðastliðinn. Tyrknesk stjórnvöld hafa haldið því statt og stöðugt fram að vélin hafi flogið inn í lofthelgi landsins þegar flugherinn ákvað að granda henni. Þessu hafa ráðamenn í Moskvu vísað á bug og segja vélina hafa verið yfir Sýrlandi þegar hún var skotin niður.

Sjá einnig: Rússar líta árásina mjög alvarlegum augum

Grand vélarinnar er litið mjög alvarlegum augum í Rússlandi og hefur Vladimir Pútín forseti landsins sagt það vera sem hnífstungu í bak þjóðar sinnar.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×