Erlent

210 börn talin hafa verið seld mansali

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Flóttamenn við komuna til Gautaborgar í Svíþjóð.
Flóttamenn við komuna til Gautaborgar í Svíþjóð. FRÉTTABLAÐIÐ/EPA
Grunur leikur á að að minnsta kosti 210 börn hafi verið seld mansali í Svíþjóð frá árinu 2012, samkvæmt kortlagningu lénsstjórnarinnar í Stokkhólmi. Um helmingur málanna hefur verið kærður til lögreglu en ekkert þeirra hefur farið fyrir dómstól, að því er sænskir fjölmiðlar greina frá.

Í helmingi málanna er um kynlífsþjónustu að ræða en börnin eru einnig látin betla og stela auk þess sem þau eru í nauðungarvinnu. Í einu tilfellanna var hótað að fjarlægja líffæri úr barni.

Flest fórnarlambanna eru sögð vera á aldrinum fimmtán til sautján ára. Nokkur eru þó sögð vera einungis tveggja ára. Börnin eru flest flóttabörn sem hafa komið ein síns liðs til Svíþjóðar.

Samkvæmt samsvarandi kortlagningu yfir árin 2009-2011 voru 166 tilfelli staðfest. Þá leiddu 68 kærur til lögreglu til tíu dóma vegna fjórtán barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×