Erlent

Komu þróun mála yfir á friðsamlega braut

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Leiðtogar fjögurra samtaka í Túnis sem mynda kvartettinn tóku við verðlaununum í gær.
Leiðtogar fjögurra samtaka í Túnis sem mynda kvartettinn tóku við verðlaununum í gær. Fréttablaðið/EPA
Túnis-kvartettinn tók við friðarverðlaunum Nóbels í gær við hátíðlega athöfn í Ósló. Kvartettinn fær verðlaunin fyrir framlag sitt til að koma á friði og lýðræði í landi sínu.

Það var í Túnis sem arabíska vorið svonefnda hófst í árslok 2010 og breiddist síðan út til annarra arabalanda. Víðast hefur ólgan ekki skilað öðru en langvarandi átökum eða endurnýjaðri harðstjórn. Túnis er þó undantekningin, ekki síst vegna kvart­ettsins sem tókst að fá andstæðar fylkingar í landinu til að ræða og vinna saman.

„Sumarið 2013 var Túnis á barmi borgarastyrjaldar,“ sagði Kaci Kullman Five, formaður norsku Nóbelsnefndarinnar, í ávarpi sínu gær. Það var þá sem kvartettinn kom til sögunnar: „Einarðleg inngrip kvartettsins hjálpuðu til við að stöðva ofbeldið, sem var að grafa um sig, og koma þróun mála yfir á friðsamlega braut,“ sagði Five.

Að kvartettinum svonefnda, eða Þjóðarsamræðukvartett eins og hann nefnist formlega, standa fjögur félagasamtök í Túnis: Samtök verkalýðsins, samtök lögfræðinga, samtök atvinnurekenda og mannréttindasamtök.

Leiðtogar þessara fjögurra samtaka tóku við verðlaununum í gær og þökkuðu heiðurinn.

„Það að heimurinn skuli veita þjóðarsamræðunni í landinu okkar viðurkenningu er staðfesting á því að við deilum með alþjóðasamfélaginu grundvallargildum mannréttinda og höfnum andlegri og hugmyndafræðilegri einangrun í öllum myndum,“ segir í ávarpi kvartettsins, sem fulltrúarnir fjórir skiptust á að lesa.

Þeir taka fram að heiðurinn sé ekki þeirra einna heldur allra pólitískra hópa í Túnis: „Þeim tókst að setja hagsmuni landsins og þjóðarinnar ofar þröngum sérhagsmunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×