Erlent

Fernandez de Kirchner flutti tilfinningaþrungna kveðjuræðu

Atli Ísleifsson skrifar
Cristina Fernandez de Kirchner tók við forsetaembættinu af eiginmanni sínum, Néstor Kirchner, árið 2007.
Cristina Fernandez de Kirchner tók við forsetaembættinu af eiginmanni sínum, Néstor Kirchner, árið 2007. Vísir/EPA
Cristina Fernandez de Kirchner, fráfarandi forseti Argentínu, flutti tilfinningaþrungna kveðjuræðu fyrir framan stuðningsmenn sína í höfuðborginni Buenos Aires í gærkvöldi.

Hægrimaðurinn Mauricio Macri, sem vann nauman sigur í síðari umferð forsetakosninganna í síðasta mánuði, mun taka við embættinu af Fernandez de Kirchner síðar í dag.

Fernandez de Kirchner hvatti Argentínumenn til að láta í sér heyra og mótmæla á götum úti, telji þeir sig svikna af nýrri hægristjórn í landinu, auk þess að hún varði stefnu stjórnar sinnar.

BBC greinir frá því að Macri þurfi að takast á við mikinn efnahagsvanda sem landið glímir við, þar sem verðbólga mælist nú nærri 15 prósent. Ýmsir sérfræðingar telja hins vegar verðbólgu í raun vera 25 prósent.

Erfiðlega hefur reynst fyrir Argentínumenn að laða að sér erlenda fjárfesta að undanförnu þar sem verð á ýmissi hrávöru hefur lækkað og gjaldeyrisforði landsins minnkað.

Argentínska ríkið fór í greiðsluþrot fyrir einu og hálfu ári og varð það í annað skiptið á þrettán árum sem ríkið náði ekki að greiða af skuldum sínum.

Nýr forseti hefur heitið því að í garð gangi nýtt tímabil breytinga og sáttar.


Tengdar fréttir

Macri boðar kúvendingu í stjórnmálum Argentínu

Macri kemur úr viðskiptaheiminum og hyggst bæta samskiptin, bæði við erlenda lánardrottna og Bandaríkin. Hann hefur meðal annars heitið því að fella niður tolla og gjöld af ýmsu tagi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×