Erlent

Mexíkóskur eiturlyfjabarón fannst myrtur

Atli Ísleifsson skrifar
Réttarlæknar segja að fjórmenningarnir hafi verið pyndaðir og drepnir áður en líkum þeirra var komið fyrir á bílaplani við hraðbraut.
Réttarlæknar segja að fjórmenningarnir hafi verið pyndaðir og drepnir áður en líkum þeirra var komið fyrir á bílaplani við hraðbraut. Vísir/AFP
Carlos Rosales Mendoza, stofnandi eins af alræmdustu eiturlyfjahringjum Mexíkó, hefur verið myrtur. Lík Rosales Mendoza fannst auk þriggja til viðbótar á hraðbraut í Morelia-fylki í vesturhluta Mexíkó, en allir höfðu verið skotnir til bana.

Hinn 52 ára Rosales Mendoza var einn stofnenda eiturlyfjahringsins La Familia Michoacana, en liðsmenn hans höfðu orð á sér fyrir að vera sérstaklega ofbeldisfullir.

Réttarlæknar segja að fjórmenningarnir hafi verið pyndaðir og drepnir áður en líkum þeirra var komið fyrir á bílaplani við hraðbraut. Ekki liggur fyrir hver ber ábyrgð á morðunum.

Rosales Mendoza hafði lengi verið viðriðinn eiturlyfjaviðskipti og stofnaði sín eigin samtök, La Familia Michoacana, eða Michoacana-fjölskyldan, árið 2000 í höfuðið á fylkinu þar sem hann ólst upp.

Samtökin seldu eiturlyf í stórum stíl en liðsmenn þeirra voru hvattir til að sleppa því að neyta þeirra sjálfir. Samtökin kváðust standa vörð um þá fátæku og hefðbundin fjölskyldugildi.

Rosales Mendoza er sagður hafa þjálfað marga þá sem síðar hafa stýrt eiturlyfjasamtökum í landinu – menn eins og Servando „La Tuta“ Gomez, Enrique „El Kike“ Plancarte, Nazario Moreno og Dionicio „El Tio“ Loya Plancarte.

Árið 2004 skipulagði hann vopnaða árás á öryggisfangelsi þar sem 25 fangar sluppu og var sjálfur handtekinn vegna málsins. Hann varði næsta áratuginn í fangelsi.

Mexíkósk yfirvöld skáru fyrir nokkru upp herör gegn skipulagðri glæpastarfsemi í Mexíkó og höfðu óttast að Rosales Mendoza ynni nú að frekari uppbyggingu glæpasamtaka sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×