Erlent

Lemmy er allur

Lemmy Kilmister. 1945 - 2015
Lemmy Kilmister. 1945 - 2015
Lemmy Kilmister, stofnandi hinnar goðsagnakenndu bresku rokksveitar Motorhead er allur, sjötugur að aldri. Lemmy stríddi við heilsufarsvandamál síðustu misserin en í tilkynningu frá sveitinni segir að illvígt krabbamein hafi dregið hann til dauða sem uppgötvaðist ekki fyrr en á annan í jólum.

Lemmy stofnaði Motorhead árið 1975 eftir að hafa verið rótari Jimi Hendrix og bassaleikari í hipparokksveitinni Hawkwind. Hann var eini meðlimurinn sem var innanborðs alla tíð. Sveitin gaf út tuttugu og þrjár stúdíóplötur og þekktasta lag þeirra er Ace of Spades, sem kom út árið 1980. Sveitin er án efa ein sú áhrifamesta í þróun þungarokksins þrátt fyrir að Lemmy hafi sjálfur ávallt kunnað illa við að flokka tónlist í hólf og sagðist alltaf bara spila rokk og ról.

Með Lemmy er án nokkurs vafa genginn einn af máttarstólpum rokktónlistarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×