Handbolti

Rene Toft Hansen sleit krossband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rene Toft Hansen reynir hér að stoppa Aron Pálmarsson í landsleik.
Rene Toft Hansen reynir hér að stoppa Aron Pálmarsson í landsleik. Vísir/Getty
Rene Toft Hansen, fyrirliði Kiel og lykilmaður danska handboltalandsliðsins, verður ekki með Dönum á Evrópumótinu í Póllandi. Kiel staðfestir á heimasíðu sinni að leikmaðurinn sé með slitið krossband.

Rene Toft Hansen meiddist á hægra hné í sigri Kiel á Bergischer HC í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta og menn óttuðust strax hið versta sem varð síðan raunin.

Hansen sleit fremra krossband auk þess að slíta miðlægt liðband í hægra hnénu. Rene Toft Hansen mun líklega vera frá í átta mánuði og spilar því ekki meira á þessu tímabili.

Dr. Frank Pries mun framkvæma aðgerðina á hægra hné Rene Toft Hansen en hún mun fara fram strax á morgun þriðjudag.

Þetta er mikið áfall fyrir bæði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel og Guðmund Guðmundsson, þjálfara danska landsliðsins enda Rene Toft Hansen lykilmaður hjá báðum liðum.   

Thorsten Storm, framkvæmdastjóri Kiel, var allt annað en sáttur í viðtali á heimasíðu Kiel en margir leikmenn Kiel hafa meiðst á þessu tímabili og varnartröllið Patrick Wiencek sleit einnig krossband.

Öflugir leikmenn eins og Niklas Landin, Rune Dahmke, Domagoj Duvnjak og Joan Canellas hafa einnig verið að glíma við meiðsli.

Storm nefnir það að álagið sé að gera útaf við bestu liðin en Kiel lék þarna sinn 35. keppnisleik á þessu tímabili.

Patrick Wiencek og Rene Toft Hansen eru tveir aðalvarnarmenn Kiel og báðir spila einnig fyrir íslenska þjálfara með landsliðum sínum. Það gæti orðið erfitt fyrir Kiel að vinna þýska titilinn án þessara öflugu leikmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×