Handbolti

Fyrrverandi þjálfari Arons tekur við dönsku meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ortega á að snúa gengi Kolding við.
Ortega á að snúa gengi Kolding við. vísir/epa
KIF Kolding Köbenhavn, dönsku meistararnir í handbolta, hafa rekið þjálfara sinn, Henrik Kronborg. Við starfi hans tekur Spánverjinn Antonio Carlos Ortega. Þetta kemur fram á heimasíðu Kolding.

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands, gerði Kolding að dönskum meisturum 2014 og 2015 en hætti eftir síðasta tímabil.

Gengi liðsins hefur verið undir væntingum í vetur en Kolding situr í 5. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 22 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Team Tvis Holstebro.

Ortega var síðast við stjórnvölinn hjá ungverska stórliðinu Veszprém en var látinn taka pokann sinn í byrjun tímabilsins. Hann gerði Veszprém þrisvar að ungverskum meisturum og liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem það tapaði fyrir Barcelona.

Aron Pálmarsson leikur með Veszprém en meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við þjálfarastöðuna hjá liðinu eru Patrekur Jóhannesson, þjálfari austurríska landsliðsins, og Ola Lindgren, þjálfari Kristianstad og sænska landsliðsins.

Ortega tekur til starfa hjá Kolding 1. febrúar 2016 en hann gerði þriggja og hálfs árs samning við dönsku meistarana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×