Mennirnir tveir sem réðust inn í útibú Landsbankans í Borgartúni höfðu á brott með sér peninga. Þetta staðfestir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, í samtali við fréttastofu, en gefur ekki upp hversu há upphæðin var.
Þá voru mennirnir, samkvæmt heimildum fréttastofu, vopnaðir skammbyssum og ógnuðu starfsfólki bankans. Ekki liggur fyrir hvort um alvöru skammbyssur var að ræða eða ekki.
Sjónarvottar segja þá hafa ráðist að einum gjaldkera og hrist hann, en öllu starfsfólki hefur verið boðin áfallahjálp. Þeir segja mennina jafnframt haft fyrir vitum sér trefla eða annars konar grímur og öskrað „Þetta er rán“
Börn voru í bankanum þegar ránið var framið, að sögn sjónarvotta.
Mennirnir óku á brott á hvítum sendiferðabíl, og tókst sjónarvottum að taka niður skráninganúmer bílsins. Lögregla er með mikinn viðbúnað á svæðinu og verið er að auka öryggisgæslu í öðrum útibúum Landsbankans.
Mennirnir eru enn ófundnir.
