Erlent

Engir útlendingar í Pyongyang-maraþoni af ótta við ebólu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá flugvellinum í Pyongyang í Norður-Kóreu.
Frá flugvellinum í Pyongyang í Norður-Kóreu. Vísir/AP
Norður-kóresk yfirvöld hafa meinað öllum útlendingum þátttöku í Pyongyang-maraþoni sem fram fer í þann 12. apríl næstkomandi. Er það gert af ótta við úrbreiðslu ebóluveirunnar.

Nýjar reglur tóku gildi í Norður-Kóreu í október síðastliðinn þar sem erlendum ferðamönnum var meðal annars skipað að fara í þriggja vikna sóttkví við komuna til landsins.

Engin tilfelli ebólu hafa komið upp í Norður-Kóreu eða í nokkru landi í nágrenni þess. Þó að enn komi upp ný tilvik þá hefur dregið verulega úr útbreiðslunni síðustu vikur og mánuði.

Pyongyang-maraþonið er einn vinsælasti viðburður ársins fyrir þá ferðamenn sem leggja leið sína til Norður-Kóreu.

Um níu þúsund manns hafa látið lífið af völdum ebólu síðasta árið, langflestir í Vestur-Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×