Erlent

Spánverjar vilja eiga gullgaleiðuna

Samúel Karl Ólason skrifar
Teikning af San Jose.
Teikning af San Jose. Vísir/EPA
Stjórnvöld á Spáni segjast eiga réttinn á spænskri galeiðu sem fannst nýverið við strendur Kólumbíu. Mikil leit hefur verið gerð að Galeiðunni San Jose síðustu áratugi, en talið er að verðmæti farms hennar sé minnst einn milljarður dala, eða um 130 milljarðar króna.

Galeiðunni var sökkt af bresku herskipi árið 1708 og lengi hefur verið talið að hún hafi borið mikla fjársjóði. Fundur hennar var tilkynntur nú um helgina.

Mynd sem birt var af yfirvöldum í Kólumbíu um helgina. Hún er sögð vera úr flaki San Jose.Vísir/EPA
Jose Garcia-Margallo, utanríkisráðherra Spánar, segir að þar sem skipið hafi siglt undir spænskum fána sé það eign landsins samkvæmt lögum. Yfirvöld á Spáni eru tilbúin til að fara til Sameinuðu þjóðanna til að fá skipið, en utanríkisráðherrann sagðist vilja finna vinsamlega lausn á málinu.

Samkvæmt frétt BBC voru sett lög í Kólumbíu árið 2013 sem segja til um að öll flök sem finnist á yfirráðasvæði landsins séu menningararfur. Talið er að um 1.200 slík flök sé að finna í lögsögu Kólumbíu.

Fjársjóðsleitarmenn hafa lengi leitað að San Jose, en sögusagnir hafa ávallt verið á kreiki um að skipið hafi verið notað til að flytja mikil auðæfi til Spánar. Þá er átt við gull, silfur og gimsteina, sem Filippus fimmti, konungur, hafi ætlað að nota til að fjármagna stríðsrekstur sinn við Bretland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×