Erlent

Strauss-Kahn neitar að hafa verið melludólgur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dominique Strauss-Kahn þvertekur fyrir að hafa framið glæp með þátttöku sinni í kynlífssvalli á árum áður.
Dominique Strauss-Kahn þvertekur fyrir að hafa framið glæp með þátttöku sinni í kynlífssvalli á árum áður. Vísir/AFP
Réttarhöld í máli Dominique Strauss-Kahn, fyrrum forstjóra Alþjóðagjaldeyrisins, fara nú fram í borginni Lille í Frakklandi. Strauss-Kahn er ákærður fyrir að hafa útvegað vændiskonur í kynlífssvall sem hann á að hafa tekið reglulega þátt í á árum áður.

Ekki er ólöglegt að kaupa vændi í Frakklandi en það er ólöglegt að hafa milligöngu um það og útvega vændiskonur. Strauss-Kahn neitar að hafa komið nokkuð nálægt því og segir saksóknara ýkja hlutverk sitt í kynlífssvallinu. Hann sagði fyrir rétti í dag aðeins hafa tekið þátt í 12 kynlífspartýum á þremur árum og þvertekur fyrir að hafa framið nokkurn glæp.

Saksóknarar halda því hins vegar fram að Strauss-Kahn hafi verið aðalmaðurinn á bakvið svöllin og lýsa honum sem „partýkóngi“.

„Hann gerði þetta til að skemmta sér,“ sagði saksóknari.

Verði Strauss-Kahn fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi auk þess sem hann gæti fengið sekt upp á 1,5 milljónir evra sem samsvarar rúmum 200 milljónum króna.

Strauss-Kahn var lengi vel talinn líklegur til að verða forseti Frakklands en í kjölfar þess að kynlífshneyksli hans komust í hámæli runnu þær fyrirætlanir út í sandinn.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá mótmælendur frá samtökunum FEMEN gera aðsúg að bíl Strauss-Kahn þegar hann kom í réttinn í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×