Erlent

Fá milljónir í bætur eftir að stúlkum var víxlað á fæðingardeild

Birgir Olgeirsson skrifar
Getty
Tvær franskar fjölskyldur hafa fengið nærri því tvær milljónir evra í bætur vegna mistaka á fæðingardeild sem urðu til þess að foreldrarnir fengu röng börn í hendurnar.

Það var dómstóll í bænum Grasse sem kvað upp þennan dóm í dag en hann dæmdi fæðingardeild í Cannes til að greiða fjölskyldunum 1,88 milljón evra, eða sem nemur rúmlega 282 milljónum íslenskum króna, en þessar bætur eru sex sinnum lægri en það sem fjölskyldurnar höfðu farið fram á.

Í hitakassa með annarri stúlku

Breska fréttastofan Sky segir upphaf málsins hafa átt sér stað þann fjórða júlí árið 1994 þegar Sophie Serrano eignaðist dóttur sína Manon á fæðingardeildinni í Cannes. Vegna gulu var stúlkan sett í hitakassa ásamt annarri nýfæddri stúlku.

Aðstoðarhjúkrunarfræðingur víxlaði óafvitandi stúlkunum og voru mæðurnar sendar heim með röng börn þó svo að þær hefðu lýst yfir efasemdum sínum og meðal annars bent á að hárlengd dætra þeirra væri ekki sú sama og þegar þær sáu þær síðast.

Faðirinn með efasemdir

Tíu árum síðar á ákvað faðir Manons að undirgangast faðernispróf vegna þess að honum fannst dóttir sín ekkert lík sér. Faðernisprófið leiddi í ljós að Manon er ekki dóttir hans. Sophie Serrano komst síðar að því að Manon var ekki dóttir hennar sem varð til þess að þau hófu leit að fjölskyldunni sem var með dóttur þeirra.

Þau hittust öll í fyrsta skiptið fyrir tíu árum en fóru ekki fram á skiptum á dætrum en ákváðu að best væri að halda ákveðinni fjarlægð og hafa því ekki hist síðastliðin tíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×