Innlent

Segir fjárfestingasamninginn ekki raska samkeppni á fiskeldismarkaði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Matorka hyggst setja á laggirnar bleikjueldi í Grindavík.
Matorka hyggst setja á laggirnar bleikjueldi í Grindavík.
Forstjóri Matorku, Árni Páll Einarsson, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag önnur fyrirtæki í fiskeldi hafi getað sótt um ívilnun vegna nýfjárfestinga líkt og Matorka gerði á grundvelli laga frá árinu 2010 um slíkar ívilnanir. Fyrirtækið hyggst setja á laggirnar bleikjueldi í Grindavík og hefur Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar-og viðskiptaráðherra, verið gagnrýnd fyrir fjárfestingarsamning ríkisins við fyrirtækið.

Árni Páll segir umsókn Matorku hafa fengið efnislega og vandaða meðferð í stjórnsýslunni og nú „þegar því ferli er lokið koma fram hagsmunaaðilar og aðrir fiskeldisframleiðendur og eru ósáttir við að lögin geti átt við fyrirtæki sem séu í fiskeldi.“ Þá segir forstjórinn jafnframt að samkeppnisforskot fyrirtækja sem nú starf í fiskeldi sé „töluvert við fyrirtæki sem byggja framleiðslu frá grunni, líkt og Matorka.“

Þá heldur Árni Páll því fram að ýmsar rangfærslur hafi komið fram í fjölmiðlum varðandi fjárfestingarsamning Matorku við ríkið. Hámarksívilnun til fyrirtækisins verður 425 milljónir króna, segir forstjórinn, en fjárfestingin er áætluð um 1,4 milljarðar. Því standist þær fullyrðingar um að fyrirtækið hafi rétt á allt að 60% enga skoðun.

Að lokum segir Árni Páll að fjárfestingasamningur Matorku við ríkið leiði ekki af sér röskun á fiskeldismarkaðnum:

„Ekki tala kollegar um að áform annarra framleiðenda á Íslandi setji allt á hliðina en í pípunum er framleiðsluaukning á bleikju um allt að 5.000 tonn og er þar Samherji stærstur. Af hverju telst það ekki röskun á samkeppni?“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×