Fótbolti

Stjörnubanarnir héldu hreinu í hitanum og komust áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Dedryck Boyata í fyrri leiknum kom Celtic áfram.
Mark Dedryck Boyata í fyrri leiknum kom Celtic áfram. Vísir/Getty
Skosku meistararnir í Celtic eru komnir áfram í umspil um laust sæti í Meistaradeildinni í fótbolta eftir markalaust jafntefli í Aserbaídsjan í dag.

Celtic sló þar með lið Qarabag frá Aserbaídsjan út á eina markinu sem var skorað í fyrri leik liðanna á Celtic Park. Markið skoraði Dedryck Boyata.

Dedryck Boyata var líka á skotskónum í 2-0 sigri á Stjörnunni í fyrri leik liðanna á Celtic Park en Celtic-liðið vann 6-1 samanlagt eftir 4-1 sigur í seinni leiknum á Samsungvellinum.

Celtic-liðið fékk fullt af færum í seinni hálfleik til að skora markið sem hefði gulltryggt sætið í umspilinu en það kom ekki að sök. Heimamenn ógnuðu Skotunum aldrei að neinu ráði í leiknum.

Leikurinn fór fram við krefjandi aðstæður þar sem mikill hiti var í Bakú í kvöld.

Astana frá Kasakstan komst fyrr í dag áfram í sömu keppni eftir 4-3 sigur á finnska liðinu HJK út í Kasakstan en liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Finnlandi.

HJK komst í 2-0 í fyrri hálfleik en Astana tókst að tryggja sér dramatískan sigur eftir að hafa misst mann af velli með rautt spjald þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Evgeni Postnikov skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma en 3-3 jafntefli hefði nægt finnska liðinu til að fara áfram á fleiri mörkum á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×