Erlent

Forsætisráðherra Finnlands ávarpar þjóð sína

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrirhugaðar aðhaldsaðgerðir finnskra stjórnvalda hafa sætt gagnrýni.
Fyrirhugaðar aðhaldsaðgerðir finnskra stjórnvalda hafa sætt gagnrýni. Vísir/AFP
Finnski forsætisráðherrann Juha Sipilä hyggst ávarpa þjóð sína í sjónvarpi í kvöld. Ástæðan eru þeir efnahagslegu erfiðleikar sem Finnar standa frammi fyrir, en á föstudag er gert ráð fyrir að tugþúsundir muni leggja niður störf auk þess að fjöldamótmæli eru skipulögð.

Í frétt SVT kemur fram að mótmælaaðgerðir finnskra stéttarfélaga muni hafa áhrif á lestar-, flug- og strætósamgöngur, auk þess að opnunartími verslana verður skertur. Með þessu er verið að mótmæla aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Aðgerðir finnsku ríkisstjórnarinnar miða að því að draga úr útgjöldum atvinnuveitenda með því að fækka sumarleyfisdögum og minnka kaup vegna vinnu á sunnudögum og yfirvinnu.

Óalgengt er að forsætisráðherra Finnlands ávarpi þjóð sína með þessum hætti.

Síðast sem sambærilegu ávarpi var sjónvarpað var árið 1993 þegar Esko Aho, þáverandi forsætisráðherra, ræddi þann efnahagssamdrátt sem landið glímdi þá við. Þá ávarpaði forsætisráðherra Finna þjóð sína einnig í Vetrarstríðinu í byrjun síðari heimsstyrjaldar og eftir að fréttir bárust af dauða Jósefs Stalín.

Ávarp Sipilä verður flutt í Yle TV1 klukkan 18:05 að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×