Erlent

Tónleikum U2 frestað: „Gríðarlega margir sem grétu fyrir utan höllina“

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Árnason segist vonast til að geta breytt plönum sínum þannig að hann komist á tónleika sveitarinnar sem haldnir verða á þriðjudag.
Bjarni Árnason segist vonast til að geta breytt plönum sínum þannig að hann komist á tónleika sveitarinnar sem haldnir verða á þriðjudag. Vísir/Getty
„Það eru náttúrulega gríðarlega margir sem voru að koma annars staðar frá – frá útlöndum eða annars staðar í landinu – sem grétu fyrir utan höllina, vitandi það að þeir verða ekki hérna á þriðjudaginn,“ segir í Bjarni Árnason, læknir í Stokkhólmi, sem hugðist fara á tónleika írsku sveitarinnar U2 sem áttu að fara fram í Globen í kvöld.

Tónleikunum var frestað fram á þriðjudag í kjölfar þess að höllin var rýmd af lögreglu af öryggisástæðum.

Bjarni segir að hann og hans föruneyti hafi beðið fyrir utan Globen í fjóra klukkutíma fyrir tónleikana. „Í upphafi var okkur sagt að það væri einhver vandræði með miðakerfið og ekki væri hægt að skanna miðana. Það voru örugglega fjögur, fimm þúsund manns sem biðu þarna í röð fyrir utan höllina. Það virtist enginn hafa hugmynd um hvað væri að gerast.“

Sænskir fjölmiðlar hafa greint frá því að lögregla hafi leitað ungs manns sem átti að hafa komist inn í höllina með skotvopn. „Það hefur þó ekki fengist staðfest. Svo hefur einhvers staðar heyrst að það hafi komið sprengjuhótun,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að milli fjörutíu og fimmtíu manna hópur Íslendinga hafi verið mættur á staðinn til að sjá sveitina troða upp. „Margir þeirra munu missa af tónleikunum á þriðjudaginn. Við búum reyndar hérna í Stokkhólmi og við ætlum að reyna að komast. Ég er reyndar með önnur plön en vonandi verður hægt að breyta þeim. Ég veit ekki alveg hvernig þetta verður.“

Ertu svekktur?

„Jú, ég er afskaplega svekktur. Þetta er stór viðburður og eitthvað sem maður er búinn að bíða eftir frá því að maður var táningur. Ég hef aldrei séð U2 áður á tónleikum og auðvitað er maður svekktur yfir að hafa ekki komist á tónleikana. Eins og ég segi þá ætla ég að reyna að breyta mínum plönum og komast á þriðjudaginn, en það eru ekki allir sem geta gert það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×