Erlent

Tveir menn handteknir í Noregi vegna fimmtán ára gamals morðs

Atli ísleifsson skrifar
Tinu Jørgensen hvarf sporlaust í september 2000 og fannst lík hennar fyrir tilviljum rúmum mánuði síðar.
Tinu Jørgensen hvarf sporlaust í september 2000 og fannst lík hennar fyrir tilviljum rúmum mánuði síðar. Vísir/Getty/Norska lögreglan
Lögregla í Noregi hefur handtekið tvo 36 ára menn vegna gruns um að tengjast morðinu á Tinu Jørgensen sem var myrt í Stafangri í september 2000. Norskir fjölmiðlar greina frá þessu.

Hin tvítuga Tina hvarf sporlaust aðfaranótt sunnudagsins 24. september 2000 en hún hafði þá verið að skemmta sér í miðborg Stafangurs.

Annar maður gaf sig fram í dag

Lögregla handtók 36 ára gamlan mann í gærdag en hann hafði ekki áður tengst rannsókn málsins. Hann á að hafa þekkt Tinu og hefur nú verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Annar 36 ára maður gaf sig svo fram við lögreglu síðdegis í dag og er hann einnig grunaður um aðild að morðinu. Lögregla segir ekki útilokað að fleiri geti tengst málinu.

Lögregla í Noregi mun halda blaðamannafund vegna málsins í kvöld.

Líkið fannst fyrir tilviljun

Í frétt NRK um morðið kemur fram að lögregla telji að Tina hafi verið myrt undir brú í borginni, en lík hennar fannst fyrir tilviljun illa leikið í holu við Bore-kirkju, um 30 kílómetrum fyrir utan Stafangur, rúmum mánuði eftir að hún hvarf. Bútar úr sama poka höfðu þá fundist bæði í holunni við Bore-kirkju sem og undir brúnni í Stafangri.

Leitin að Tinu var sú umfangsmesta í sögu lögreglunnar í Rogalandi en leit fór bæði fram á sjó og landi. Lögreglu barst 1.300 ábendingar við rannsókn málsins og framkvæmdi lögregla 1.700 yfirheyrslur.

Kærastinn var ákærður á sínum tíma

Kærasti Tinu varð ákærður vegna morðsins í október 2001 en sleppt skömmu fyrir jól ári síðar. Honum voru dæmdar um 188 þúsund norskar krónur í bætur árið 2005.

Málið vakti gríðarlega mikla athygli á sínum tíma í Noregi en rannsókn málsins var hætt árið 2002. Lögregla tók hins vegar upp málið að nýju í mars 2013 eftir að fjöldi nýrra ábendinga hafði borist.

Uppfært klukkan 16:53:

Verdens Gang fullyrðir að búið sé að handtaka þriðja manninn vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×