Erlent

Vikið úr skóla út af hringnum eina

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Úr fyrstu myndinni í kvikmyndaþríleiknum Hobbit.
Úr fyrstu myndinni í kvikmyndaþríleiknum Hobbit.
Bandarískum dreng var vísað tímabundið úr skóla eftir að hann mætti með hring sem hann sagði að væri hringurinn úr Hringadróttinssögu og Hobbitanum. Skólinn taldi að öryggi samnemenda hans hefði verið stefnt í hættu vegna hringsins.

Faðir drengsins, Jason Steward, segir í samtali við bandaríska blaðið Daily News að sonur sinn hafi farið með hringinn í skólann eftir að hafa horft með fjölskyldunni á Hobbit: The Battle of Five Armies aðeins nokkrum dögum áður. Hann segist ekki skilja af hverju vísa þurfti syni hans úr skólanum.

Steward segir að yfirkennarinn í skólanum hafi sagt við sig að hótanir í garð annarra barna væri ekki liðið – hvort sem um töfra væri að ræða eða ekki. Blaðið segir að skólastjórinn, Roxanne Greer, hafi neitað að tjá sig um málið.

Honum þykir málið allt hið furðulegasta. „Krakkar leika eftir myndum sem þau sjá. Þegar ég horfði á Superman sem barn fór ég út og reyndi að fljúga," segir Steward.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×