Erlent

Naseem líflátinn í Íran þrátt fyrir kröftug mótmæli

Atli Ísleifsson skrifar
Saman Naseem var liðsmaður vopnaðra samtaka Kúrda, PJAK.
Saman Naseem var liðsmaður vopnaðra samtaka Kúrda, PJAK. Mynd/Amnesty
Írönsk stjórnvöld hafa tekið hinn 22 ára Saman Naseem af lífi, þrátt fyrir kröftug mótmæli fjölda mannréttindasamtaka. Mahmood Amiry-Moghaddam, leiðtogi íranskra mannréttindasamtaka, hefur staðfest þetta.

Naseem var Kúrdi og var dæmdur til dauða árið 2013 vegna brota sem hann var sakaður um að hafa framið sautján ára gamall. Hann hafði þá verið liðsmaður vopnaðra samtaka Kúrda, PJAK, og var dæmdur fyrir að hafa skotið í átt að írönskum öryggissveitum.

Í frétt mannréttindasamtakanna Amnesty segir að eftir handtökuna hafi Naseem verið neitað að hitta lögmann sinn og fjölskyldu. Fjölskylda hans vissi þá ekkert um handtökuna fyrr en hún sá myndband í sjónvarpinu þar sem hann „viðurkenndi“ þátttöku í aðgerðum gegn íranska ríkinu.

Naseem sagði fyrir dómi að við yfirheyrslur hafi verðir fjarlægt neglur af fingrum og tám, auk þess að hann var barinn til óbóta. Þá sagðist hann hafa verið hengdur á hvolf með bundið fyrir augun þar sem verðir létu hann skrifa undir skjöl með fingraförum þar sem hann játaði brot sín.

Hann neitaði sök í málinu og sagðist hafi skotið úr byssi sinni upp í loftið en ekki í átt að írönskum öryggissveitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×