Erlent

Taílendingar banna staðgöngumæðrun fyrir útlendinga

Atli Ísleifsson skrifar
Mál Gammy vakti mikla athygli á síðasta ári.
Mál Gammy vakti mikla athygli á síðasta ári. Vísir/AFP
Taílenska þingið hefur staðfest lög sem banna erlendum ríkisborgurum að greiða taílenskum konum fyrir að ganga með barn þeirra. Lögin voru samþykkt í kjölfar mikillar umræðu sem blossaði upp í landinu í kjölfar tveggja mála á síðasta ári.

Lögin banna starfsemi „umboðsmanna“ og hvers kyns auglýsingar fyrir konur sem eru reiðubúnar að ganga með barn annarra. Allir þeir sem gerast brotlegir við lögin eiga yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Staðgöngumæðrun í Taílandi var mikið til umræðu á síðasta ári eftir að drengur sem staðgöngumóðir gekk með fæddist með Down‘s heilkenni. Neitaði þá ástralskt par að taka við drengnum, sem fékk nafnið Gammy, sem taílensk staðgöngumóðir hafði eignast fyrir parið. Gammy varð þá eftir hjá staðgöngumóðurinni en parið tók tvíbura Gammy með sér aftur til Ástralíu.

Enn meiri umræða skapaðist svo eftir að upp komst að japanskur maður væri faðir á annars tug barna sem mismunandi taílenskar staðgöngumæður höfðu gengið með.

Staðgöngumæðrun í viðskiptaskyni var bönnuð af taílenskum yfirvöldum árið 1997, en þrátt fyrir það hefur mikill iðnaður blossað upp þar sem erlendir ríkisborgarar hafa leitað til Taílands í leit að konu til að ganga með barn sitt gegn greiðslu.

Staðgöngumæðrun í landinu verður þó ekki alfarið bönnuð þar sem pör með að minnsta kosti einum taílenskum ríkisborgara verður heimilt að notast við staðgöngumóður þó að ekki megi greiða fyrir þjónustuna.


Tengdar fréttir

Ástralíustjórn íhugar inngrip

Áströlsk stjórnvöld íhuga nú að grípa inn í mál taílenskrar staðgöngumóður, sem tók að sér að eignast barn fyrir ástralskt par.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×