Erlent

Eftirlitsmenn gagnrýna kosningarnar í Tyrklandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kúrdi les fréttir af kosningaúrslitunum í Díjarbakír í gær.
Kúrdi les fréttir af kosningaúrslitunum í Díjarbakír í gær. vísir/EPA
Frambjóðendur til þingkosninganna í Tyrklandi um helgina nutu ekki jafnræðis í kosningabaráttunni, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum kosningaeftirlits Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Sumir frambjóðendur áttu erfiðara en aðrir með að koma boðskap sínum á framfæri við kjósendur, og réði þar mestu aukin spenna og ofbeldi í aðdraganda kosninganna, einkum í suðausturhluta landsins þar sem stjórnarherinn átti í átökum við Kúrda.

Andrúmsloft ótta var magnað upp, meðal annars með handtökum á stuðningsmönnum HDP-flokksins, sem hefur barist fyrir réttindum Kúrda.

Þá er fjölmiðlafrelsi ábótavant í landinu, að mati eftirlitsmanna. Sakamál voru höfðuð gegn tugum blaðamanna á síðustu vikunum fyrir kosningarnar, þar sem blaðamennirnir voru sakaðir um stuðning við hryðjuverkamenn. Og öll umfjöllun um rannsókn á sjálfsvígsárásinni í Ankara í síðasta mánuði var bönnuð.

Recep Tayyip Erdogan forseti segist hins vegar ekkert skilja í þessari gagnrýni. „Þjóðarviljinn hefur kosið mig með 52 prósentum atkvæða,” sagði hann við fjölmiðla.

„Heimsbyggðin öll ætti að bera virðingu fyrir þessu, en ég hef ekki orðið var við slíkan þroska.“

Flokkur Erdogans, AK-flokkurinn, endurheimti í þessum kosningum öruggan meirihluta á þingi, en þó ekki nægan meirihluta til þess að geta náð fram breytingum á stjórnarskrá landsins.

Erdogan forseti óskar nú eftir aðstoð smærri flokkanna við stjórnarskrárbreytingar, sem eiga að styrkja stöðu forsetans.

Kúrdaflokkurinn HDP náði síðan mönnum á þing þrátt fyrir háan þröskuld, en flokkar þurfa heil tíu prósent atkvæða til að fá menn á þing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×