Erlent

Staðfesting á dómi yfir Raif Badawi sagður svartur dagur fyrir tjáningarfrelsið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Það er ekki glæpur að blogga og Raif Badawi er refsað fyrir það eitt að nýta sér tjáningarfrelsi sitt,“ sagði Philip Luther, framkvæmdastjóri skrifstofu Amnesty International fyrir Mið-Austurlönd og Norður-Afríku.
„Það er ekki glæpur að blogga og Raif Badawi er refsað fyrir það eitt að nýta sér tjáningarfrelsi sitt,“ sagði Philip Luther, framkvæmdastjóri skrifstofu Amnesty International fyrir Mið-Austurlönd og Norður-Afríku.
Ákvörðun hæstaréttar í Sádi-Arabíu um að staðfesta dóminn er bloggarinn Raif Badawi hlaut upp á 10 ár í fangelsi og 1000 svipuhögg er svartur dagur fyrir tjáningarfrelsið í landinu, að sögn Amnesty International.

„Það er andstyggilegt að þessi grimmilegi og óréttláti dómur hafi verið staðfestur. Það er ekki glæpur að blogga og Raif Badawi er refsað fyrir það eitt að nýta sér tjáningarfrelsi sitt,“ sagði Philip Luther, framkvæmdastjóri skrifstofu Amnesty International fyrir Mið-Austurlönd og Norður-Afríku.

Með því að láta hjá líða að snúa við dómi undirréttar yfir Raif Badawi, hafi sádiarabísk yfirvöld sýnt réttlætinu lítilsvirðingu og þeim þúsundum radda sem hafa kallað eftir tafarlausri og skilyrðislausri lausn hans. Nú, þegar dómur hans er endanlegur og óafturkræfur, má jafnvel búast við að opinber hýðing hans fari fram næsta föstudag, 12. júní. Ákvörðun þessi kastar enn frekari rýrð á nú þegar bága stöðu mannréttinda í Sádi-Arabíu segir í tilkynningu Amnesty.

„Þann 14. maí 2014 hlaut Raif Badawi tíu ára fangelsisdóm ásamt því að sæta 1000 svipuhöggum og greiðslu sektar upp á 1 milljón riöl (rúmlega 35 milljónir króna) eftir að hafa sett upp vefsíðu ætlaða til samfélagslegrar og pólitískrar umræðu í Sádi-Arabíu.

Hann er samviskufangi og hafa tugþúsundir félaga Amnesty International gripið til aðgerða í herferð samtakanna þar sem kallað er eftir lausn hans,“ segir í tilkynningunni.

Þann 9. janúar 2015 sætti Raif Badawi 50 svipuhöggum eftir föstudagsbænir á almenningstorgi í Jeddah og leiddi það til alþjóðlegra mótmæla. Frekari hýðingum var frestað í tvær vikur samkvæmt læknisráði. Hann hefur ekki sætt hýðingum síðan þá, en stjórnvöld hafa ekki gefið upp ástæður þess. Eftir niðurstöður hæstaréttar er hann í mikilli hættu á að sæta þeim 950 svipuhöggum sem eftir eru af dómnum kemur fram í tilkynningu Amnesty International.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×